In English
Við höfum nú lokið við að sauma í Njálurefilinn. Verkinu var lokið þann 15. september 2020 en fyrsta sporið var tekið í ársbyrjun 2013. Refillinn er væntanlega sá lengsti í heimi, 91.6 m. Framundan er vinna við að þróa uppsetningu hans og að finna og hanna viðeigandi húsnæði. Við erum virkilega hamingjusöm með þessi merku tímamót og þökkum öllum þeim sem lagt hafa verkefninu lið.
Verkefnið snerist um að sauma Brennu-Njálssögu og sýna söguna með nýjum hætti.
Saumað var í hördúk með völdu íslensku ullargarni sem var sérstaklega jurtalitað fyrir verkefnið. Um er að ræða refilsaum en refill er forn útsaumur sem stundaður var á Víkingaöld. Elstu reflarnir sem eru til á söfnum í heiminum eru um þúsund ára gamlir. Sá lengsti er í Bayeux í Normandí og er hann 70 metra langur. Samkvæmt Íslenskri orðabók frá 2002 er refill „lárétt veggtjald, langt og fremur mjótt, með útsaumuðum myndum (með refilsaumi)“ Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari, listamaður og bókmenntafræðingur er hönnuður Njálurefilsins. Undirbúningur og framkvæmd verkefnisins var á höndum Christinu M. Bengtsson og Gunnhildar Eddu Kristjánsdóttur.
Tilgangur verkefnisins var fyrst og fremst að skapa magnað verk sem hefur mikla þýðingu í ferðaþjónustu og í samfélagi heimamanna. Öll vinnan við refilinn er samvinna fyrirtækja stofnana og áhugasamra aðila hér á Suðurlandi. Sögusvið Njáls-sögu nær yfir Suðurland og tengir því svæðin allt frá Hornafirði í austri að Þingvöllum í vestri.
Njála er þekktasta fornsagan sem við Íslendingar eigum og mjög margir erlendir ferðamenn og fræðimenn gera ferð til landsins til að skoða sögusvið sögunnar sem er ljóslifandi allt í kringum okkur á Suðurlandi.